Lyfjaokur á Íslandi

Eitt dæmi um einokun og sjálftöku lyfjaframleiðenda og innflytjenda á Íslandi er lyfið Amilin.  Til skamms tíma framleiddi Actavis þetta lyf í Hafnarfirði með góðum árangri og seldi á góðu verði, 100 töflur af veikustu gerð, 10mg kostuðu 516.- krónur í apóteki.  Nú framleiðir Actavis lyfið ekki lengur en flytur inn sama lyf undir öðru heiti.  Svipaður skammtur, eða 112 töflur í fjórum umbúðaeiningum kostar í dag krónur 1.818.-  Verðið hefur þrefaldast á rúmum mánuði við það eitt að heita útlendu nafni og koma pakkað að utan.  Er þetta ekki bara eitt dæmi af mörgum?  Hætt er við því þegar um fákeppni er að ræða eins og hér á Íslandi.  Einokun í verslun og tilheyrandi okur ætla seint að verða upprætt hér á landi.

Hvers vegna?

Hvers vegna ætli fleiri erlendar konur en íslenskar leiti til kvennaathvarfs á Íslandi?  Ekki er reynt að svara þeirri spurningu í fréttinni.  Ein ástæðan fyrir þessari staðreynd er að erlendar konur hafa ekki sama tengslanet og þær íslensku og þurfi því frekar að leita formlegara leiða eins og kvennaathvarfs þegar þær sæta harðræði á heimili.  Íslenskar konur hafa mun fleiri úrræði en þær íslensku og eru ekki upp á kvennaathvarf komnar í sama mæli og þær erlendu. 
Flest blönduð hjónabönd sem ég þekki til eru til fyrirmyndar í alla staði.   Varast ber að tilteknir þjóðfélagshópar fái á sig neikvæða stimplun við félagslega umræðu, ekki síst þegar svo merk samtök sem sameinuðu þjóðirnar og nefnd á þeirra vegum er annars vegar. 
Hægt er að fara í kringum sannleikann með tölum eins og öðru og enginn er hafinn yfir kröfuna um að hafa réttsýni og sannleika að leiðarljósi í umfjöllun um menn og málefni.

mbl.is Einkennilegt að heimila afnám nálgunarbanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanleg skýring

Hugsanlegt er að hvolpurinn hafi orðið fyrir bíl og rotast eftir að hann strauk frá eigendum sínum.  Bílstjórinn gæti hafa talið  að hundurinn væri dauður og viljað urða hann.   Slík skýring er öllu viðfelldnari en að þetta hafi verið gert af tómri mannvonsku.
mbl.is Eigandinn saklaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gómurinn virkaði vel!

Einu sinni sem oftar er sr. Baldur Vilhelmsson, prófastur emeritus í Vatnsfirði, var að kenna börnum í barnaskólanum á Reykjanesi, fannst honum að börnin tækju ekki nógu vel eftir, væru eitthvað óvær og masgjörn.
 
Kalt var úti og gluggar hrímaðir er þetta gerðist.  Gekk sr. Baldur þá að einum glugganum og rýndi út.  Allt án árangurs, því frostrósir og hrím byrgðu honum sýn.  Tautaði hann eitthvað fyrir munni sér, eins og hans er siður og þeir þekkja er hafa umgengist sr. Baldur.
 
Loks tók hann það til bragðs, að hann tók út úr sér gervitennurnar og skóf hrímið af glugganum á bletti til að geta séð út um gluggann.  Gekk það eftir og gat prófasturinn gáð til veðurs og mannaferða.  Horfðu börnin stóreyg og undrandi á allt atferli fræðara síns. 
 
Eftir þetta dugði séra Baldri að ganga að glugganum og kíkja út ef honum fannst börnin eitthvað annars hugar.  Datt þá á dauðaþögn og börnin urðu móttækilegri en ella fyrir því sem fyrir þau var lagt.
 
Þetta trix virkaði bara þegar frostrósir voru á gluggum.

Er búið að útvega losunarkvóta fyrir nýtt álver á Húsavík?

Spyr sá sem ekki veit.  Svo virðist sem alls staðar megi reisa álver og aðrar verksmiðjur og þá er ekki minnst á gróðurhúsalofttegundir og losunarkvóta.  Slíkt virðist aðeins eiga við um Vestfirði, þar liggja engir losunarkvótar á lausu.  Hins vegar óska ég Húsvíkingum hjartanlega til hamingju með nýtt álver, sem þeir eru vel að komnir og á það eftir að blása nýju lífi í atvinnulíf á svæðinu!
mbl.is Boranir ganga vel í Þingeyjarsýslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo skal böl bæta, að bíði annað verra...

Hver er bættari þó að ógæfumaður sé tekinn af lífi í nafni samfélagsins?  Við höfum ekki rétt til að taka líf, hvorki sem einstaklingar né samfélag.  Þetta vita flest menningarsamfélög heimsins.  Dauðarefsingar eru siðlausar og eiga engan rétt á sér, hvernig sem á það er litið.  Þær eru verri en glæpir brotamannsins, því þær eru skipulagðar og gerðar í nafni einhvers hóps fólks, sem er þá gert ábyrgt fyrir aftökunni. 

Undanfarið hafa Bandaríkjamenn verið að taka af lífi afbrotamenn sem hafa setið í fangelsi áratugum saman.  Sá tími sem líður er yfirleitt vel notaður til endalausra áfrýjana og beiðna um fresti af her lögfræðinga sem hafa af þessu atvinnu sína.  Sjálfur lifir sakamaðurinn milli vonar og ótta meðan á þessu stendur.  Betra er að bjóða verstu afbrotamönnunum fæði og húsnæði til æviloka á kostnað almennings.   Innan veggja fangelsisins geta þeir notað tímann til að íhuga líf sitt og innri mann og búið sig undir það sem bíður okkar allra.


mbl.is Aðferðir við dauðarefsingar skoðaðar af Hæstarétti Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornaveiðar vantrúarmanna

Það var athyglisvert að verða vitni að umræðu vantrúarmannsins og talsmanns Sri Chimnoy í Kastljósi í kvöld, 25. september.  Greinilegt er að vantrúarfólk á mjög erfitt með að greina á milli andlegrar iðkunar fólks í einkalífi sínu og opinbers starfs þess og málflutnings.  Vandfundinn verður kandidat fyrir friðarverðlaun Nóbels sem ekki á sér einhverja trú.

Væntanlega er óskaland vantrúarfólks samfélag þar sem allir eiga að aðhyllast eina trú, vantrú, og þeir sem eru grunaðir um annað verða ofsóttir miskunnarlaust eins og sumt vantrúarfólk hefur sýnt og sannað að það á svo auðvelt með.


Allar bjargir bannaðar?

Íbúar Vesturbyggðar hafa fagnað hugmyndum um olíuhreinsunarstöð í sveitarfélaginu.  Sama verður ekki sagt um stjórnvöld landsins eða náttúruverndarsamtök.  "Enginn losunarkvóti er til á gróðurhúsalofttegundum" er viðkvæðið.  Nú var Skipulagsstofnun að leyfa byggingu kísiljárnverksmiðju í Helguvík.  Fylgir henni þá engin losun á koltvísýringi eða öðrum gróðurhúsalofttegundum?  Einnig má spyrja hvert hafi farið losunarkvóti allra togaranna og fiskiskipanna, sem gerð voru út frá Vestfjörðum og eru horfin á braut?  Er hann innbyggður í fiskveiðikvótann, sem fór með skipunum?  Er þá fiskveiðikvótinn ekki orðinn enn dýrmætari en áður? 

Auðvitað er öll þessi umræða til marks um það hörmulega ástand, sem ríkir hér fyrir vestan, að olíuhreinsunarstöð skuli vera einn besti kosturinn í byggðamálum landshlutans.   Hins vegar hljóta Vestfirðingar að hafa einhvern rétt í þessu samhengi, ekki síður en Suðurnesjamenn, til dæmis, sem eru fá kísiljárnverksmiðju þegjandi og hljóðalaust að því er virðist. 

Olíuhreinsunarstöð í einum hinna fögru Ketildala er ekki heillandi hugmynd.  En kannske ill nauðsyn í landshluta sem hefur verið að blæða út í mörg undanfarin ár.  Hún mun verða til þess að bæta vegasamband við Reykjavíkursvæðið og ekki síður við frændfólk og vini á norðanverðum Vestfjörðum og flýta fyrir sameiningu sveitarfélaganna. 

Óska ég íbúum Vesturbyggðar og Vestfirðingum öllum alls hins besta í þessari mikilvægu baráttu. 

 


Dapurlegar fréttir frá Grænlandi

Þær eru dapurlegar fréttirnar sem berast frá Grænlandi þessa dagana.  Vísindamenn hafa fundið þar 19. auðugustu olíulindir jarðar, sem að sjálfsögðu má ekki nýta.  Það er sorglegt að vita af allri þessari olíu sem ekki má vinna, til þess eru engir losunarkvótar til.  Það hefur  lýðum verið gert ljóst.  Sama á við um hugsanlegar olíulindir sem kunna að falla Íslandi í skaut norður og suðaustur af landinu, engin þjóð og allra síst Ísland hefur losunarkvóta til að hreinsa og fullvinna þessar náttúruauðlindir okkar.  Harla dapurlegt.

Hressilegt kirkjukaffi á Eyri við Seyðisfjörð

Í dag var árleg síðsumarmessa í Eyrarkirkju í Seyðisfirði.   Messað hefur verið síðsumars í Eyrarkirkju á hverju ári síðan kirkjan var gerð upp fyrir rúmum áratug.  Sigríður Ragnarsdóttir spilaði á orgelið og henni til aðstoðar var eiginmaður hennar, Jónas Tómasson tónskáld og flautuleikari. Að messu lokinni fluttir  Barði Ingibjartsson sóknarnefndarformaður fyrir Súðavíkur- og Eyrarkirkjur stutta tölu um sögu kirkjunnar.   Gengið var til altaris og notaður forn kaleikur og patína í eigu kirkjunnar, gripir sem munu  ekki hafa verið notaðir lengi.  Fjölmenni var við messu, nánast full kirkja og var uppistaðan í kirkjugestum fólk sem á ættir að rekja í Seyðisfjörðinn, aðallega til Uppsala, Kleifa og Eyri.  Að messu lokinni var gengið í bæ á Eyri þar sem kirkjugestir gæddu sér á kaffi og meðlæti.  Ekki var langt liðið á kaffidrykkju þegar Benedikt Sigurðsson, tónlistarmaður í Bolungarvík, hóf að spila fjörug lög á harmónikkuna.  Er ekki að fjölyrða að kirkjukaffið leystist upp í hljóðfæraleik, söng og dans sem dunaði fram eftir degi.  Hefð er fyrir því á Eyri, að dansað sé á hlaðvarpanum þegar fólk úr sveitinn  kom þar saman.  Eru Seyðfirðingar glaðvært fólk og fjörugt og var gaman að hlusta á þá sem eldri voru segja skemmtilegar sögur úr sveitinni þegar fjölmenni var á hverjum bæ.  Góð hefð að koma árlega saman við messu í Eyrarkirkju í Seyðisfirði!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband