Reykingar hafa ekki áhrif á varanleika sambanda!

Í þessari frétt er ekkert sem réttlætir fyrirsögnina.  Það að fleiri hjón slíti samvistum í hópi þeirra sem reykja heldur en í hópi þeirra sem reykja ekki þýðir ekki að miklar reykingar séu breyta sem valdi aukinni tíðni hjónaskilnaða.  Reyndar er miklu líklegra að há tíðni reykinga sé tengd öðrum þáttum og að bæði miklar reykingar og há tíðni hjónaskilnaða séu afleiðingar annarra þátta í aðstæðum viðkomandi þjóðfélagshópa.  Fyrirsögnin er því ekki í samræmi við efni fréttarinnar.
mbl.is Reykingar hafa áhrif á varanleika sambanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að efla hagvöxt með skattpíningu landsmanna?

Í þessari frétt er annars vegar talað um að auka hagvöxt til að þjóðarbúið geti mætt skuldbindingum sínum vegna Icesave málsins.  Í sömu andrá er rætt um hversu mikið þarf að hækka skatta á landsmenn til að mæta umræddum skuldbindingum!  Fer þetta tvennt vel saman?   Hvernig væri að rannsaka hversu mikið tekjur ríkisins aukast við að taka upp 15% þjóðfélag, þar sem tekjuskattur, fjármagnstekjuskattur og virðisaukaskattur er flöt 15%.  Þetta hefur verið gert annars staðar og skilað ríkissjóðum annarra landa gífurlegum tekjum.  Mætti ekki skoða einhverjar nýjar leiðir í stað þessara gömlu og þreyttu, að líta aðeins til aukinnar skattheimtu?
mbl.is Ríkið ræður við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frétt á réttum forsendum

Það var ánægjulegt að lesa þessa frétt um íþróttamennina ungu sem standa sig svo vel sem raun ber vitni.  Áherslan er öll á það að þeir eru að bæta sig og sinn eigin tíma og eru þannig í keppni á eigin forsendum. Óska íþróttamönnunum fræknu góðs gengis í framtíðinni!
mbl.is Ragnar Ingi og Jón Margeir halda áfram að bæta sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjómannadagurinn í Suðureyrarkirkju 2009

Sjómannadagurinn 2009

Sjómönnum, aðstandendum þeirra og ykkur öllum óska ég hjartanlega til hamingju með daginn.

Einmitt á þessum degi, á sjómannadeginum 2009 dag eiga hamingjuóskir sérstaklega við, því að í fyrsta sinn í manna minnum hefur enginn Íslendingur farist í sjó síðastliðna tólf mánuði, frá sjómannadegi í fyrra til sjómanndagsins í dag.

Þetta eru sannarlega gleðileg tíðindi og það sem mestu varðar, að ekki þurfi að kosta til mannslífum til að fá björg í bú. Eflaust eru margar skýringar á þessum glæsilega árangri, bátar eru betri en þeir voru, veðurspár öruggari og ekki síst hlýtur þessi árangur að vera til marks um hversu langt slysavarnastarf sjómanna og annarra aðila hefur skilað öryggismálum sjómanna á Íslandi.

En þó framfarir á sviði tækni og öryggismála komi hér við sögu, skulum við ekki gleyma góðum Guði, ekki gleyma að fela honum vegi okkar alla. Við vonum og biðjum að áfram megi íslenskir sjómenn stunda störf sín á viðsjálsverðum slóðum við Ísland þannig að öryggi þeirra sé tryggt eins og mest það má og felum þá Guði í hendur.

Og fleiri hamingjuóskir eiga við í dag. Það má líka óska Súgfirðingum til hamingju með það hversu veglega þeir halda sjómannadaginn hátíðlegan. Það verður að segjast eins og er að vegur sjómannadagsins hefur víða farið minnkandi á undanförnum árum og má rekja það til breyttra lífshátta og breyttra aðstæðna í útgerð hér á landi. Þess vegna er það enn meira ánægjuefni hversu mikinn metnað Súgfirðingar leggja í að gera dag sjómanna sem veglegastan.

Já, þjóðfélagið tekur breytingum á flestum sviðum. Meðal þeirra breytinga sem eru einna mest áberandi hér í Súgandafirði þessi árin er að samsetning samfélagsins er að breytast. Æ fleiri útlendingar taka upp búsetu hér og taka drjúgan þátt í atvinnustarfseminni hér á staðnum. Þannig leggja þeir fram sinn ómetanlega skerf til að hér geti þrifist mannlíf og menning.

Og fjörðurinn og fólkið tekur vel á móti hinum nýju landnemum. Sambýlið er friðsamlegt og gott. Gestirnir koma með angan af annarri menningu og um leið kynnast þeir menningunni sem á líf sitt og uppruna hér í firðinum.

Það varðar miklu að þeir sem hér búa miðli til nýju íbúanna af þeirri menningu sem hér blómstrar og hefur gert undanfarna áratugi og aldir.

Og það hafa þeir gert. Meðal þess er að halda veglega hátíðardaga þjóðarinnar, jafnvel veglegar en margir stærri staðir gera. Því Súgfirðingar hafa mikinn metnað í þessum efnum.

1. maí er árlega farin vegleg skrúðganga eða kröfuganga undir spjöldum sem minna á margt það sem betur má fara í samfélaginu. Gangan endar í sundlauginni þar sem ungir Súgfirðingar þreyta kappsund, í og með í minningu þess að verkalýðsfélagið hér á stað stóð myndarlega að byggingu sundlaugarinnar á sínum tíma.

Og dagskrá sjómannadagsins er með þeim veglegri á stóru svæði. Með því að leggja rækt við gamlar hefðir og siði varðveitum við menningu staðarins og miðlum til þeirra ungu og til þeirra sem nýkomnir eru.

Og svo er annars konar menning og menningarlíf sem lifir og dafnar í beitingarskúrum á Eyrinni. Þar eru málin rædd og reifuð frá ýmsum sjónarhornum og niðurstaðan er alltaf í anda staðarins. Ókunnugir verða stundum undrandi á umræðunni því þeir átta sig ekki á því að menn fylgja ekki Ara fróða þegar hann sagði á sínum tíma að ávallt skyldi hafa það sem sannara reynist. Fremur er það haft sem skemmtilegara reynist, það sem safaríkara reynist og það sem kjarnmeira reynist. Og smám saman komast þeir sem aðkomnir eru inn í anda staðarins og byrja að taka þátt í umræðunni sem stunduð er og því mannlífi sem er lifað hér og hefur verið um langan aldur.

Það eru mikil verðmæti fólgin í mannlífinu og staðbundinni menningu í einum firði eins og Súgandafirði og vandséð hvernig íslensk menning muni lifa það af að byggð hér og á svipuðum stöðum hringinn í kringum landið muni leggjast af. Eða þá að staðbundin menning þeirra muni þynnast út og hverfa út í einhvern gráleitan nútíma sem er í senn allt og ekkert.

Þess vegna er það mikilvægt að rækta staðbundin menningarverðmæti og að vera örlát á þau gagnvart þeim sem koma að. Þá mun Súgandafjörður og Suðureyri lifa og dafna og líka sá andi sem hér hefur ríkt lengi og lengur en elstu menn muna. Í því öllu eru fólgin verðmæti sem ekki verða metin til fjár, en eru engu að síður sönn og raunveruleg.

Biskupinn yfir Íslandi, herra Karl Sigurbjörnsson, heiðraði Súgandafjör með nærveru sinni sl. fimmtudagskvöld og föstudagmorgun. Heimsótti hann kirkjurnar og kynnti sér margt sem kirkjustarf varðar.  Var sú heimsókn öll hin ánægjulegasta.

Í merkri prédikun sem hann flutti á fimmtudagskvöldið hér í kirkjunni vitnaði hann í orð þess efnis að við mannfólkið höfum hið innra með okkur rúm, sem er eins og Guð í laginu. Hins vegar væri það svo, að oft væri þetta rými fyllt með öðru en því sem því væri ætlað. Margir fylla þetta rými áhyggjum og kvíða gagnvart hinu ókomna eða þá eftirsókn eftir því sem ef til vill skiptir minnstu máli í lífi okkar ef vel er að gáð.

Ef til vill er þyngsta byrðin að bera í lífinu sú að telja að hvaðeina sem gerist sé undir mér einum komið, að einstaklingurinn sé höfundur sjálfs sín og eigin lífs. Þeir sem svo hugsa setja sjálfan sig í rýmið hið innra sem er Guði ætlað. Slík afstaða hlýtur að enda með skipbroti. Þegar allt kemur til alls, þá er þetta verk, að fylla tómið hið innra með okkur með Guðs anda, ekki á okkar höndum. Þvert á móti þá er það Guðs verk, verk sem við felum honum í bæn.

Það er gott til þess að vita, að ekki er allt í lífinu á okkar ábyrgð. Þó er ábyrgð til staðar. Sú ábyrgð að gangast við því hver við erum, að viðurkenna mennsku okkar, að viðurkenna að við séum af Guði sköpuð og ábyrg gagnvart honum á sama hátt og barn gagnvart kærleiksríku foreldri. Og það er gott að fela Guði kærleikans alla sína vegu.

"Eg er á langferð um lífsins haf", segir í sálminum góða.  Öll erum við á för inn í framtíð sem er okkur að miklu leyti hulin.  Gleði - harmur, styrkur - vanmáttur, líf - dauði.  Allt þetta bíður okkar í einhverri mynd á för okkar um tímans haf.  Þá er gott að beina sjónum sínum þangað sem hjálpina er að finna, þangað sem víðsýnna er, þangað sem okkur gefst sýn á það, hvaðan við komum og hvert för er heitið.

Með Jesú um borð í fari lífsins, með orð hans í huga, með anda hans í hjarta, þar er okkur borgið.  Í Jesú nafni.  Amen.

Hugvekja flutt við guðsþjónustu í Suðureyrarkirkju á sjómannadegi 7. júní 2009.

VH






Ráðgátan um altaristöfluna í Suðureyrarkirkju

 

 

sudureyrar5.jpg

 

 Ráðgátan um altaristöfluna

Í Suðureyrarkirkju er vegleg altaristafla sem var máluð af þeim merka listamanni, Brynjólfi þórðarsyni listmálara. Myndin sýnir Jesús með lærisveinum sínum og er fyrirmyndin Lúkasarguðspjall 11:2-4 þar sem Jesús kennir lærisveinunum Faðir vor. Í forgrunni er hind sem drekkur úr lind og er það tilvísun í Davíðssálm 42:2, “Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð.”

Neðarlega til vinstri á myndinni en ofan við hindina er aloe vera planta. Er það skoðun mín, að þar sé að finna tilvísun í dauða og upprisu Krists, en aloe vera plantan var á dögum Krists notuð meðal annars til að smyrja lík. Dr. Gunnar Kristjánsson prestur á Reynivöllum hefur sagt mér að Brynjólfur málari hafi átt myndabók með verkum þekkts þýsks listmálara og málað eftir þessum myndum fyrir kirkjur til að hafa í sig og á. Hins vegar segir Dr. Gunnar að fyrirmyndin að þessu verki hafi enn ekki fundist þrátt fyrir að á myndinni sé skrifað í neðra hornið hægra megin, “copi”. Sá er þetta ritar hefur séð þetta sama “mótív” á eftirprentun á svipuðu málverki á dagatali og er aloe vera plantan eða önnur planta, jafnvel akasía, á þeirri mynd, en hindin.hvíta er ekki á þeirri mynd.  

Myndin í Suðureyrarkirkju er í afar veglegum ramma úr tré og eru orð lærisveinsins, “Herra, kenn oss að biðja”, felld inn í rammann úr annars konar við. Höfundur verksins, Brynjólfur Þórðarson var fæddur í Bakkakoti á Seltjarnarnesi 1896. Hann lagði stund á listnám við Konunglega Fagurlistaskólann í Kaupmannahöfn 1919-20, og École des Beaux-Arts í París 1925-27 og 1928-29. Starfaði hann síðan sem listmálari í Reykjavík það sem hann átti eftir ólifuð. Hann er merkur maður í sögu myndlistar á Íslandi og einn af frumkvöðlum íslenskrar málaralistar Brynjólfur lést árið 1938, fertugur að aldri. 

Hugsanlegt er að Brjynjólfur hafi stuðst við fyrirmynd hvað varðar Frelsarann og lærisveinana en bætt hindinni við.  Gaman væri ef fróður lesandi gæti upplýst aðra um þessa ráðgátu, það er að segja hver fyrirmynd verksins er ef einhverja er að finna.


GÓÐ KIRKJUSÓKN Í DANMÖRKU UM JÓLIN

Þetta finnst mér skrýtin fyrirsögn á frétt um kirkjusókn Dana:  Danir sniðganga kirkjuna", þegar í meginmáli fréttar kemur fram að heil 33% Dana muni fara í kirkju yfir jólin.  Þetta er mjög góð kirkjusókn þegar um er að ræða heila þjóð.  Margir lesa mbl.is og því varðar miklu að staðreyndir séu rétt túlkaðar og bornar fram með sanngjörnum hætti.  Því miður virðist ekki um það að ræða í þessu tilviki.
mbl.is Danir sniðganga kirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný mannanafnalög!

Mannanafnanefnd er að vinna verk sem er í raun óframkvæmanlegt eins og fjölmargir úrskurðir hennar sýna og sanna. 

Setja þarf ný lög um mannanöfn sem segi svo að meginmáli:  "Eigi skal nefna mann ónefni".  Að öðru leyti ætti fólk að vera frjálst  hvaða nöfn það gefur börnum sínum. Þetta finnst mér aðalatriðið, að einstaklingur þurfi ekki að burðast með ónefni gegnum lífið.  Núverandi skipan hefur ekki getað girt fyrir þann möguleika og leyfir þar að auki að fullgildum og góðum nöfnum sé hafnað. 

Einna alvarlegasti ágallinn er þó að nefndin hefur ekki getað gætt jafnræðis í verkum sínum sem eitt og sér er áfellisdómur um lögin og framkvæmd þeirra.   Lágmarkskrafa hlýtur að vera að mannréttinda sé gætt þegar opinbert stjórnvald er annars vegar.   Til dæmis getur tímabundið lögheimili íslenskra foreldra á einhverju Norðurlandanna gefið fólki nánast ótakmarkað frelsi til nafngifta hér á landi.  Þarna er staðið á veikum grunni og afar vafasamt að jafnræðis sé gætt.  Þessu ásamt öðru verður að breyta.


mbl.is Úranía og Evey samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami gamli hatursáróðurinn?

Málflutningur sr. Hjartar Magna minnir óþægilega á illa staddan einræðisherra í landi þar sem hver höndin er upp á móti annarri og nauðsyn er að fá sundurlaust liðið til að sameinast gegn sameiginlegum óvin.  Þegar hann kemst í útvarpið syngur hann sama sönginn um hvað þjóðkirkjan sé slæm og hvað Fríkirkjan sé góð - og hann líka.  Hefur Hjörtur Magni engan jákvæðan og uppbyggjandi boðskap að færa þjóð í vanda í aðdraganda aðventu?  Bara sama gamla hatursáróðurinn?  - Samúðarkveðjur til annars góðs drengs, Hjartar Magna.

mbl.is Fagnar úrsögn úr þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með Bretum í liði?

Bretar fóru í stríð við Þjóðverja árið 1939 þegar þeir síðarnefndu réðust inn í Pólland.  Pólverjar eiga því Bretum skuld að gjalda sem seint verður greidd.   Þar að auki eru tugþúsundir Pólverja við vinnu í Bretlandi og eflaust margir þeirra lagt pening inn á Icesave-reikninga. 

Hætt er við að þetta lánsloforð sé lóð á vogaskálar Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.  Það er athyglisvert í þessu sambandi að Pólverjar sniðgengu stjórnvöld á Íslandi þegar þeir tilkynntu ákvörðun sína.  Vona ég þó að ég hafi rangt fyrir mér og að Pólverjar standi með okkur af heilum hug en séu ekki þátttakendur í þeim hráskinnsleik sem Bretar og Hollendingar virðast nú leggja stund á með framtíð okkar Íslendinga. Woundering


mbl.is Pólverjar munu lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt kalk til áburðarframleiðslu?

Mætti ekki nota þetta íslenska kalk til áburðarframleiðslu hér á landi?  Búið er að loka Áburðarverksmiðjunni og nú er fluttur til landsins rándýr tilbúinn áburður.  Fróður maður sagði mér að í tilbúnum áburði væri aðallega köfnunarefni og kalk.  Þar að auki þyrfti að sjálfsögðu orku til framleiðslunnar.  Þetta þrennt er fyrir hendi hér á landi.   Eflaust væri mjög hagkvæmt og vistvænt að hefja á ný framleiðslu tilbúins áburðar hér á landi.
mbl.is Kalkþörungar úr Arnarfirði bæta kúafóður í Sádi-Arabíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband