Allar bjargir bannaðar?

Íbúar Vesturbyggðar hafa fagnað hugmyndum um olíuhreinsunarstöð í sveitarfélaginu.  Sama verður ekki sagt um stjórnvöld landsins eða náttúruverndarsamtök.  "Enginn losunarkvóti er til á gróðurhúsalofttegundum" er viðkvæðið.  Nú var Skipulagsstofnun að leyfa byggingu kísiljárnverksmiðju í Helguvík.  Fylgir henni þá engin losun á koltvísýringi eða öðrum gróðurhúsalofttegundum?  Einnig má spyrja hvert hafi farið losunarkvóti allra togaranna og fiskiskipanna, sem gerð voru út frá Vestfjörðum og eru horfin á braut?  Er hann innbyggður í fiskveiðikvótann, sem fór með skipunum?  Er þá fiskveiðikvótinn ekki orðinn enn dýrmætari en áður? 

Auðvitað er öll þessi umræða til marks um það hörmulega ástand, sem ríkir hér fyrir vestan, að olíuhreinsunarstöð skuli vera einn besti kosturinn í byggðamálum landshlutans.   Hins vegar hljóta Vestfirðingar að hafa einhvern rétt í þessu samhengi, ekki síður en Suðurnesjamenn, til dæmis, sem eru fá kísiljárnverksmiðju þegjandi og hljóðalaust að því er virðist. 

Olíuhreinsunarstöð í einum hinna fögru Ketildala er ekki heillandi hugmynd.  En kannske ill nauðsyn í landshluta sem hefur verið að blæða út í mörg undanfarin ár.  Hún mun verða til þess að bæta vegasamband við Reykjavíkursvæðið og ekki síður við frændfólk og vini á norðanverðum Vestfjörðum og flýta fyrir sameiningu sveitarfélaganna. 

Óska ég íbúum Vesturbyggðar og Vestfirðingum öllum alls hins besta í þessari mikilvægu baráttu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Sæll Valdimar og gaman að sjá þig hér á blogginu.  Ég tek undir hvert einasta orð hjá þér og ef við ætlum ekki að sjá byggðina leggjast af þá verður eitthvað í þessum dúr að koma til.   Mínir heimildamenn sem þekkja og hafa unnið við olíuhreinsistöðvar segja umræðuna byggða á fordómum og fáfræði.  Nánast engum skaðlegum efnum er sleppt út í náttúruna utan kolefnisútblástur sem myndast við bruna gass.

Annars bendi ég á blogg mitt frá 15. sept. sl. um þetta mál. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 25.9.2007 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband