22.8.2009 | 16:35
Hugvekja flutt á 150 ára afmæli Ögurkirkju 8. ágúst 2009.
Hugvekja flutt á 150 ára afmæli Ögurkirkju 8. ágúst 2009.
Biðjum, með orðum Hallgríms Péturssonar:
Í voða, vanda og þraut
vel ég þig förunaut
yfir mér virztu vaka
og vara á mér taka.
Jesús mér fylgi í friði
með fögru englaliði.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Og hjartanlegar hamingjuóskir með daginn, kæru kirkjugestir.
Sannarlega er það ánægjuefni að vera hér með ykkur í dag vegna svo hátíðlegs og fagnaðarríks tilefnis. Guðshúsið aldna og fagra, Ögurkirkja, orðin 150 ára.
Í spádómsbók Jeremía segir svo: Svo mælti Drottinn: Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld.
Undanfarin misseri hefur þjóð vorri ekki gengið vel að eiga frið í sálu sinni og sér ekki fyrir endann á því ástandi. Hver höndin er upp á móti annarri í ótalmörgum álitamálum sem varða velferð þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma. Reiði og vonbrigði hafa einkennt viðbrögð okkar við skelfilegum atburðum á sviði efnahagsmála og ótti um eigin hag hefur sett svip sinn á umræðu og athafnir.
Nemið staðar við veginn og litist um, segir Drottinn. Er ekki kominn tími til að við nemum staðar við veginn og litumst um og leitum að hamingjuleiðinni? Að við reynum að finna gömlu göturnar sem leiða til þess að sálir okkar öðlist hvíld og frið?
Kannske er það einmitt það sem við erum að gera hér í Ögri í dag, að litast um og spyrja um gömlu göturnar, að svipast um eftir hamingjuleiðinni?
Hér eru gömlu göturnar hvert sem litið er, jafnt í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu. Á seinustu öld urðu miklar breytingar á búsetu hér á landi. Fjöldinn fór á mölina eins og sagt var og því miður dró smám saman úr því mikla menningar- og félagslífi sem einkenndi sveitasamfélag hér áður fyrr.
Til gamans má segja frá því að sr. Jónmundur Halldórsson, prestur á Stað í Grunnavík vestur á árunum 1918-1954, sagði eitt sinnMig dreymdi í nótt að ég væri dauður og kominn í himnaríki en ekki var margt af mínu sóknarfólki þar, Nú, hvernig stóð á því? var spurt. Og ekki stóð á svari prests: Það var allt komið til Reykjavíkur.
Dvínandi byggð hefur fylgt, að gömlu göturnar gróa upp, þær hverfa um leið og kynslóðirnar. Meira að segja sauðkindin er hætt að troða göturnar gömlu, svo hefur henni fækkað víða. Og með götunum gleymast örnefnin sem gefa landinu líf og sál, því landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, eins og skáldið sagði.
En hvað um hamingjuleiðina, er hún gróin upp og gleymd? Er hana að finna hér í Ögurvíkinni? Víst er, að ekki var allt betra fyrr á tímum en nú er, en samt sem áður er lífæð þjóðarinnar fólgin í menningu hennar, sem á rætur er liggja allt til forneskju, en næra samt sem áður hugsun okkar og atferli en þann dag í dag og á þann hátt að hún er einstæð og hún er íslensk. Rótarslitinn visnar vísir þó vermist hann á hlýjum reit var sagt einu sinni og í því er fólginn eilífur sannleikur.
Já, hér eru sannarlega gömlu göturnar, hér lágu sporin og hér eiga minningarnar heima. Sumar sárar og þungbærar, en flestar ljúfar og ljómandi.
Hér átti góður vinur og kollega, séra Berharður Guðmundsson, sín fyrstu spor sem prestur. Hann hafði ætlað sér að vera hérna með okkur í dag og ávarpa okkur nokkrum orðum, en kemur því ekki við sökum lasleika.
Vegna þessara sérstöku aðstæðna leyfi ég mér að vitna beint í orð hans um þær ljúfu og björtu minningar sem hann og kona hans, Rannveig Sigurbjörnsdóttir, eiga um Guðshúsið hér í Ögri og fólkið sem hér bjó.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.