Hugvekja flutt á 150 ára afmæli Ögurkirkju 8. ágúst 2009.

 

Hugvekja flutt á 150 ára afmæli Ögurkirkju 8. ágúst 2009.


Biðjum, með orðum Hallgríms Péturssonar:

Í voða, vanda og þraut

vel ég þig förunaut

yfir mér virztu vaka

og vara á mér taka.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru englaliði.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Og hjartanlegar hamingjuóskir með daginn, kæru kirkjugestir.

Sannarlega er það ánægjuefni að vera hér með ykkur í dag vegna svo hátíðlegs og fagnaðarríks tilefnis. Guðshúsið aldna og fagra, Ögurkirkja, orðin 150 ára.

Í spádómsbók Jeremía segir svo: “Svo mælti Drottinn: Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld”.

Undanfarin misseri hefur þjóð vorri ekki gengið vel að eiga frið í sálu sinni og sér ekki fyrir endann á því ástandi. Hver höndin er upp á móti annarri í ótalmörgum álitamálum sem varða velferð þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma. Reiði og vonbrigði hafa einkennt viðbrögð okkar við skelfilegum atburðum á sviði efnahagsmála og ótti um eigin hag hefur sett svip sinn á umræðu og athafnir.

Nemið staðar við veginn og litist um, segir Drottinn. Er ekki kominn tími til að við nemum staðar við veginn og litumst um og leitum að hamingjuleiðinni? Að við reynum að finna gömlu göturnar sem leiða til þess að sálir okkar öðlist hvíld og frið?

Kannske er það einmitt það sem við erum að gera hér í Ögri í dag, að litast um og spyrja um gömlu göturnar, að svipast um eftir hamingjuleiðinni?

Hér eru gömlu göturnar hvert sem litið er, jafnt í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu. Á seinustu öld urðu miklar breytingar á búsetu hér á landi. Fjöldinn fór á mölina eins og sagt var og því miður dró smám saman úr því mikla menningar- og félagslífi sem einkenndi sveitasamfélag hér áður fyrr.

Til gamans má segja frá því að sr. Jónmundur Halldórsson, prestur á Stað í Grunnavík vestur á árunum 1918-1954, sagði eitt sinn„Mig dreymdi í nótt að ég væri dauður og kominn í himnaríki en ekki var margt af mínu  sóknarfólki þar,“ „Nú, hvernig stóð á því?“ var spurt. Og ekki stóð á svari prests: „Það var allt komið til Reykjavíkur.“

Dvínandi byggð hefur fylgt, að gömlu göturnar gróa upp, þær hverfa um leið og kynslóðirnar. Meira að segja sauðkindin er hætt að troða göturnar gömlu, svo hefur henni fækkað víða. Og með götunum gleymast örnefnin sem gefa landinu líf og sál, því landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, eins og skáldið sagði.

En hvað um hamingjuleiðina, er hún gróin upp og gleymd? Er hana að finna hér í Ögurvíkinni? Víst er, að ekki var allt betra fyrr á tímum en nú er, en samt sem áður er lífæð þjóðarinnar fólgin í menningu hennar, sem á rætur er liggja allt til forneskju, en næra samt sem áður hugsun okkar og atferli en þann dag í dag og á þann hátt að hún er einstæð og hún er íslensk. “Rótarslitinn visnar vísir þó vermist hann á hlýjum reit” var sagt einu sinni og í því er fólginn eilífur sannleikur.

Já, hér eru sannarlega gömlu göturnar, hér lágu sporin og hér eiga minningarnar heima. Sumar sárar og þungbærar, en flestar ljúfar og ljómandi.

Hér átti góður vinur og kollega, séra Berharður Guðmundsson, sín fyrstu spor sem prestur. Hann hafði ætlað sér að vera hérna með okkur í dag og ávarpa okkur nokkrum orðum, en kemur því ekki við sökum lasleika.

Vegna þessara sérstöku aðstæðna leyfi ég mér að vitna beint í orð hans um þær ljúfu og björtu minningar sem hann og kona hans, Rannveig Sigurbjörnsdóttir, eiga um Guðshúsið hér í Ögri og fólkið sem hér bjó.

Svo farast séra Berharði orð: “Ég steig inn fyrir þröskuldinn á þessari öldnu kirkju og skyndilega fannst mér tíminn nema staðar eða öllu heldur hverfa aftur á bak 100 ár aftur í tímann og ég fann að ég var að feta í spor forvera minna sem hér höfðu þjónað hver fram af öðrum. Menn koma og fara en Orð Guðs stendur stöðugt - og kirkjan Ögurkirkja stendur stöðug og geymir sögu kynslóðanna.

Ég var kominn, í vetrarbyrjun 1962, nývígður prestur, 25 ára gamall, til þess að flytja mína fyrstu messu í sóknarkirkju. Helgina áður hafði ég verið settur inn í embætti sóknarprests Ögurþinga það var gert í skólanum í Súðavík og prófastur leiddi athöfnina.. Ögurkirkja var mín fyrsta sóknarkirkja, þar flutti ég fyrstu messuna  og þessvegna er hún mér sérstaklega kær

Ég var kvíðinn, ekki aðeins var ég að taka fyrstu skrefin sem prestur í þjónustu kirkjunnar heldur var allt umhverfið harla framandlegt Reykjavíkurpiltinum. Hvernig gat ég flutt boðskap kirkjunnar á skiljanlegan hátt við þessar nýju aðstæður ? Ég gekk inn kirkjuganginn og orðum vigsluföður mins laust niður í hugann:” Þið gerið ekkert af eigin ágæti, þið hafið einfaldlega ljáð líkama ykkar huga og sál til þjónustunnar, heilagur andi mun leggja ykkur orð á tungu, hann er styrkur ykkar. Hempan er tákn þjónustunnar , byrði ykkar, en Drottinn ber ykkur uppi,- leggið ykkur í hans faðm.”

Ég gekk fyrir altarið, Líneik lék svo undur fallega á orgelið og Hafliði færði mig í skrúðann. Vigurfólkið og Ögurfólkið sat í kór og leiddi sönginn, karlar sátu öðru megin í kirkjunni , konur hins vegar að gömlum sið. Kirkjan var björt og vel haldin og söngurinn hljómaði fallega, einn af gömlu íslensku sálmunum sem trúlega var sunginn þegar á fyrstu árum kirkjunnar. Ég leit yfir söfnuðinn, þetta kyrrláta, hlýlega fólk sem hafði tekið mér svo vel og ég þakkaði Drottni og bað hann að blessa stundina

Kirkjan var stórvirki, byggð á miklum erfiðleikatímum. Einn harðasti vetur aldarinnar var að baki, hafis fyrir landi og 20 stiga frost á Einmánuði, fjárkláðinn lá eins og skuggi yfir bændum, en kirkjan vitnar um stórhug Ögursafnaðar í erfiðri kreppu.

Það var fleira stórt í Ögri. Ögurbærinn var engu líkur, prýddur glæsilegri gestastofu, ógleymanlegu eldhúsi, þar sem bakaraofninn var upp á vegg eins og nú gerist og silfuráhöld í soðningunni. Lokrekkjum á háalofti og hlýju símastofunni þar sem kakkelovnen var rauðkynntur á vetrum. En mest var um heimafólkið vert. Þar var fólk með reisn og stíl, Líneik og Hafliði, gáfað og lífsreynt menningarfólk sem tengdi fyrir mér fortíð og nútíð með einstökum hætti. Og ekki gleymi ég syni þeirra  og jafnaldra mínum, Halldóri, sem stóð gegn tilhneigingu samtímast að flytjast suður, flytjast burt, og stóð enn fastar í fætur eftir að stúlkan hans María frá Kálfavík  tók sér stöðu við hlið hans. Þessvegna er myndarbragur yfir öllu hér í Ögri – í takt við fyrri tíma.

Ég þjónaði Ögurþingum aðeins í tæp þrjú ár, reyndar var ég erlendis í leyfi um átta mánaða skeið. Engu að síður urðu kynni mín nánari af Ögursöfnuði en  flestum öðrum sem ég hef þjónað.Aðstæðurnar voru þannig. Ég fór til messu í Ögri mánaðarlega  að kalla,  á föstudagsmorgni með Fagranesinu þar sem Kristján Jónsson stóð við stýrið og þjónustaði byggðina vel. Stansað var úti fyrir flestum bæjum í Skötufirðinum, menn komu fram á kænunum sínum, lyftu þungum mjólkurbrúsunum yfir borðstokkinn í allslags öldugangi og tóku við tómum brúsum og kærkomnum sendingum.

Ég heilsaði upp á þá við borðstokkinn og minnst  var á messu sunnudagsins. Stundum fór ég í land með einhverjum , húsvitjaði á nokkrum bæjum og gekk svo yfir til Ögurs. Þar var alltaf afar gott að koma, koma heim.

Undir hádegi á sunnudag fóru bátarnir að birtast í Ögurvíkinni og Hafliði þekkti þá alla. Fólk skipti gjarnan um föt  er lent var og síðan gengið til messu. Það var aldrei messufall.

Að messu kokinni var veislukaffi og miklar umræður. Fólk sem bjó nokkuð afskekkt nýtur þess að hitta góða vini og granna. En síðan hófust gjarnan  einhver fundahöld. Hreppsnefndin , kvenfélagsstjórnin og aðrir hópar notuðu tækifærið  til  að sinna málum , jafnvel kaupskap. Það var langt liðið á dag þegar gestir fóru. Og þar stóð kirkjan , mitt á meðal lýðs síns, í meðbyr  sem mótlæti ,  á stundum gleði og sorgar.

Stundum fór ég með fólki frameftir til að húsvitja á bæjunum og kynnast aðstæðum þeirra og njóta samvista  við þetta góða og greinda fólk. Nógan hafði ég tímann og hann nýttist vel við undir búning fermingarbarnanna. Ekki gleymast innihaldsríkar heimsóknir hjá Guðrúnu og Karli á Birnustöðum eða að Laugabóli og reyndar öllum bæjunum , hver með sínu sniði.

 Ég fór síðan  með Fagranesinu   um hádegisbilið á þriðjudag og komst heim þá um kvöldið. Fimm daga útivera vegna einnar messu. Aðrir kostir voru ekki. Engir vegir voru um Djúpið á þeirri tíð. Stundum fór ég þó heim með Vigurfólki , gisti þar og þeir fluttu mig á mánudegi heim í Súðavík. Það voru hátíðadagar,  gömlu hjónin í Vigur, Björg og Bjarni, voru  vitrir höfðingjar og  lífskraftur yngri hjónanna, Sigríðar og Baldurs, og virðing þeirra fyrir sögu og hefðum, skóp heimilisbrag sem ég aldrei gleymi.

Svo hafa árin liðið, kirkjan mín kæra í Ögri sem var rétt rúmlega aldargömul traust og virðuleg þegar við áttum samleið, er nú skyndilega orðin 150 ára.

Og ég sem þjónaði þar fyrir skemmstu, að mér finnst, er kominn á áttræðisaldur og hættur þjónustu og kemst ekki til afmælisins eins og ég hafði hlakkað til, vegna lasleika

En menn koma og fara, prestar þjóna um skeið og aðrir taka við en orð Guðs stendur stöðugt og – kirkjan í Ögri stendur stöðug mitt á meðal lýðs síns enn í dag og um ókomna daga

Ég bið góðan Guð að blessa söfnuð Ögurkirkju, blessa þau sem þar þjóna, blessa allar athafnir í kirkjunni – blessa þetta fagra og aldna hús sem er öllum skjól sem þangað leita í gleði sem sorg.

Með hjartans kveðjum og heillaóskum frá okkur Rannveigu”.

Þannig hljóða þau, minningar- og kveðjuorð hins ljúfa Guðsmanns, Bernharðs Guðmundssonar. Við felum hann og fjölskyldu hans alla Guði á vald. Og það sama á við um allar minningarnar sem stundin hér í dag er helguð.

Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld”, segir Drottinn. Er það ekki einmitt það sem hinn roskni prestur var að gera með því að horfa til baka til liðinnar tíðar hér við Djúp? Og það sem við blasir er samfélag í sátt við landið, í sátt við sjálft sig og í sátt við Drottinn sinn og skapara?

Við erum í sömu sporum. Við felum Drottni vegi okkar alla og biðjum hann að okkur auðnist að sjá hver hún er, hin sanna hamingjuleið, svo að sálir okkar megi öðlast frið.

Dýrð sé Guði, föður og syni, svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náð Drottins vors, Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Í Jesú nafni. Amen.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband