22.8.2009 | 16:29
Fyrirgefning og sátt
Prédikun flutt í Eyrarkirkju við Seyðisfjörð 23. ágúst 2009
Guðspjall dagsins fjallar um fyrirgefningu. Umkomulítil kona leitar til Jesú í ótta um andlega heill. Samfélagið er búið að dæma hana og fordæma og eflaust hefur hún gert þá fordæmingu að sinni og litið sjálfa sig smáum augum. En eitthvað var það sem rak hana á fund Drottins, einhver von um að hann gæti gert hana heila á ný.
Af orðum Drottins í guðspjöllunum almennt má ráða, að fyrirgefning var var honum jafnan ofarlega í huga. Í 7. kafla Lúkasarguðspjalls er sagt frá þremur máttarverkum Jesú. Þar er sagt frá því er hann læknar þjón hundraðshöfðingjans. Það var vissulega mikið kraftaverk, því maðurinn var dauðvona. Þar er einnig sagt frá enn meira kraftaverki þegar hann reisir ungan mann frá dauðum. Og er hægt að hugsa sér meira kraftaverk en það að reisa látinn til lífs?
Já, því mesta og stærsta kraftaverkið sem sagt er frá í þessum sjöunda kafla Lúkasarguðspjalls það þegar hann fyrirgefur konunni, sem kölluð er bersyndug og sagt er frá í guðspjalli okkar. Fyrirgefning syndanna er mesta og stærsta kraftaverkið Jesús.
Hugsum málið. Þó svo að einstaklingi séu gefin einhver nokkur ár til góða hér í heimi, þá er það nú svo, að eitt sinn skal hver deyja. Sá sem öðlast fyrirgefningu og sátt hins vegar, rís upp til nýs og annars lífs en þess er hann eða hún átti fyrir. Þannig uppfyllir fyrirgefningin sárustu þörfina sem við finnum fyrir í lífi okkar, þörfina fyrir að lifa í sátt við okkur sjálf, í sátt við náungann og í sátt við Guð okkar.
Því fyrirgefning er sáttargjörð, sáttargjörð við sjálfan sig, sáttargjörð við náungann og sáttargjörð við almáttugan Guð. Fyrirgefning er líf í sátt og kærleika. Og líf í sátt og kærleika er það sem við erum fædd til í þessum heimi, tilgangur lífs okkar og markmið. Þetta vitum við öll innst inni. Þess vegna er það að þessi umræða skiptir okkur máli, hún snertir innsta kjarna tilveru okkar.
Það er sárt að fá ekki að reyna fyrirgefninguna, sáttina og kærleikann en finna í þess stað fyrir einmanaleika, sársauka og fjarlægð frá sjálfum sér og því sem okkur er ætlað að vera, fjarlægð frá náunga okkar, jafnvel þeim sem okkur standa næst, fjarlægð frá Guði okkar, sem við vorum sköpuð til að eiga samfélag við. En því miður þá er þetta veruleiki í lífi allt of margra.
Og það er einmitt þess vegna að sáttargjörðin, fyrirgefningin sem Jesús veitir bersyndugu konunni í guðspjalli okkar, er stærsta kraftaverkið sem frá er sagt í þessum kafla Lúkasarguðspjalls, stærra en lækning á líkamlegum meinum og stærra en lífgjöfin sjálf sem sonur ekkjunnar eignaðist og sagt er frá í 7. kafla Lúkasarguðspjalls.
Því fyrirgefningin er gjöf annars lífs og meira lífs og betra lífs. Hún gefur hún sem dugar - ekki aðeins um hríð hér í heimi heldur um alla eilífð. Og lífið sem fyrirgefningin gefur er það líf sem við erum sköpuð til, líf í sátt við okkur sjálf, líf í sátt við annað fólk og líf í sátt við Guð okkar. Lífið sem fyrirgefningin gefur er líf í samfélagi við Guð kærleikans.
Nú er senn liðið eitt ár síðan íslenskt efnahagslíf hrundi. Sjaldan eða aldrei í sögu þjóðarinnar hefur meiri reiði ríkt meðal hennar, sjaldan eða aldrei hafa jafn margir orðið fyrir jafn miklum skaða og nú. Sennilega er enginn hér á landi sem ekki hefur orðið fyrir meira eða minna tjóni, og það sem er ef til vill sárara, sem er að horfa upp á ástvini, börn og barnabörn verða fyrir fjárhagstjóni, atvinnumissi og öðrum skaða.
Þjóðin er að ganga í gegnum sorgarferli, þar sem harmurinn og reiðin er í réttu hlutfalli við áfallið sem þjóðin varð fyrir. Sumir hafa spurt hversu missirinn var mikill í raun og veru, því þegar allt kemur til alls má spyrja hvort allt þetta mikla góðæri, öll velsældin sem virtist ríkja hér á landi um skeið hafi verið nema í orði en ekki á borði. Allt bendir til að ekki hafi verið innistæða fyrir öllu því sem á borðum var.
Áfallið er þó ekki minna fyrir það og ef til vill meira, því okkur finnst sem við höfum verið höfð að ginnungarfíflum.
En þar kemur að við verðum að gera upp liðna atburði og reyna að koma farinu heilu heim. Þjóðin þarfnast sáttargjörðar, þarfnast þess að fyrirgefa og verða fyrirgefið. Til þess þarf iðrun og til þess þarf kærleika. Það á við þjóðina sem heild og okkur, hvert fyrir sig sem einstakling.
Í guðspjalli okkar er sagt frá Símoni farísea sem furðaði sig og reyndar hneykslaðist á því að Jesús hefði samskipti við konuna bersyndugu. Reyndar gerði Jesús meira en það, hann fyrirgaf konunni syndir hennar og gaf henni gjöf nýs lífs. Símon farísei fann ekki til þess að hann þarfnaðist fyrirgefningar og hann var ánægður með sitt góða og syndlausa og réttláta líf, takk fyrir. Honum fannst ekki hann þurfa eins eða neins við yfir höfuð. Það var allt í lagi með hann. Það voru hinir sem voru ekki í lagi.
Þetta er varasamur hugsunarháttur. En því miður dálítið útbreiddur. Ef íslenska þjóðin á að ná sátt verður að líta til allra átta, líka í eigin barm. Við skulum varast að reisa múra sem koma í veg fyrir að þjóðin nái sáttum við sjálfa sig, nái að verða heil á ný. Í þjóðfélagi okkar eru stofnanir sem er ætlað að ganga úr skugga um sekt eða sakleysi fólks og við verðum að treysta þeim til að öllu réttlæti verði fullnægt.
Fyrirgefning og sáttargjörð þýðir ekki að sekir sleppi undan ábyrgð. Þvert á móti er það forsenda fyrirgefningu og sáttar að réttlæti ríki, að allir þeir sem sekir reynast, verði leiddir til ábyrgðar og lúti lögum Guðs og manna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.